Nýtt 27 íbúða fjölbýlishús hefur risið á mettíma á Móavöllum í Reykjanesbæ. Húsin er forsmíðum timburhús en um er að ræða þróunarverkefni á vegum fasteignafélagsins Klasa.

Húsin komu til landsins í lok nóvember og aðeins tveimur vikum síðar var risið 27 íbúða fjölbýlishús á fjórum hæðum. Aðeins eru sex mánuðir síðan vinna hóst á svæðinu. Sala á íbúðunum er nú að hefjast.

„,Þetta er mjög mjög hagkvæmur byggingarmáti. Það tæki 18-24 mánuði að reisa sambærilegt hús miðað við hefðbundinn byggingarmáta þannig að tækifærið með þessu er hægt að bregðast fljótt við eftirspurn þar sem hún er,“ segir Halldór Eyjólfsson, þróunarstjóri Klasa.

Halldór segist ekki vita til þess að fjölbýlishús hafi verið reist hér á landi með þessum hætti. Þá segir hann þennan byggingarmáta sérstaklega umhverfisvænan og hugi m.a. að orkusparnaði.

„Við ákváðum að slá ekkert af kröfum, bæði hvað varðar íslenska neytendur og lög og reglugerðir. Í mörgum tilfellum erum við jafnvel að ganga lengra en markaðurinn þekkir. Við erum að bjóða hagkvæmustu íbúðir á undir 20 milljónum, tveggja herbergja íbúðir. Og allt upp í 95 fermetra fjögurra herbergja íbúðir sem verða á 36 til 37 milljónir,“ segir Halldór

Meðalfermetraverð íbúða í húsinu er í kringum 400.000 krónur. Halldór segir að vel komi til greina að reisa svona hús víðar á landinu. „Það er mikil eftirvænting og það verður gaman að sjá hvernig viðbrögðin verða,“ segir Halldór.