Hagnaður Flugleiða og 13 dótturfyrirtækja fyrir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins var um 3,3 milljarðar króna. Á sama tímabili árið 2003 var hagnaður fyrir skatta um 2,1 milljarður króna. Að teknu tilliti til skatta er hagnaður samstæðunnar 2,7 milljarðar króna fyrstu níu mánuði ársins en var 1,7 milljarðar króna á sama tímabili í fyrra. Velta félagsins fyrstu níu mánuði ársins var 34 milljarðar króna, rekstrarkostnaður 31 milljarður króna og fjármagnsliðir jákvæðir um 300 milljónir króna.

Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða, sagðist í dag vera mjög ánægður með niðurstöðuna. "Þetta er ívið betra en kom fram í bráðabirgðauppgjöri sem félagið birti í tengslum við hlutabréfaútboð fyrr í mánuðinum. Í þessu uppgjöri kemur fram sá styrkur sem byggður hefur verið inní reksturinn undanfarin ár. Félagið hefur sótt fram í mjög fjölþættum rekstri í flugi og ferðaþjónustu og hefur náð góðum tökum á þessari starfsemi með því að skipta henni í sjálfstæðar rekstrareiningar. Flugleiðir eru að ná góðum rekstrarárangri þriðja árið í röð á sama tíma og flugfélög í okkar heimshluta eiga flest mjög á brattann að sækja. Þetta hefur skapað félaginu grundvöll til að sækja fram og stefna á bæði innri og ytri vöxt," segir Sigurður í tilkynningu til Kauphallarinnar.