Halli á samstæðureikningi Reykjanesbæjar fyrir árið 2012 er áætlaður 452,2 milljónir króna, samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarfélagsins sem var lögð fram í fyrradag.

Ef litið er til samstæðunnar eru eignir á hvern íbúa áætlaðar tæplega 3,4 milljónir króna og skuldirnar um 2,7 milljónir.

Handbært fé frá rekstri er talið vera 110,6 milljónir fyrir bæjarsjóð og um 1,7 milljarðar fyrir samstæðu. Til samstæðunnar teljast meðal annars Reykjaneshöfn, HS Veitur og Þróunarsjóður Reykjanesbæjar.

Helstu óvissuþættir eru sagðir varða Eignarhaldsfélagið Fasteign, en gert er ráð fyrir að bærinn taki yfir allt viðhald við eignir Fasteignar. Útsvarsprósenta verður áfram 14,48% og skatttekjur áætlaðar um 5,2 milljarðar króna.