Morgundagur, útgáfufélag Fréttatímans, tapaði rúmlega 27 milljónum króna vegna reksturs síðasta árs samkvæmt ársreikningi félagsins. Það er talsverð aukning frá árinu 2010 þegar félagið tapaði 2,6 milljónum króna en það var fyrsta starfsár Fréttatímans.

Blaðið hóf göngu sína í október það ár. Helstu tekjur félagsins eru af auglýsingasölu sem námu samtals um 296,5 milljónum króna. Útgáfukostnaður nam rúmlega 204 milljónum króna og laun og launatengd gjöld 101 milljón. Eigið fé félagsins í lok árs 2011 nam rúmlega 23 milljónum króna.