Vilji netnotendur vafra um netið án þess að sjá auglýsingar myndi það kosta þá að minnsta kosti 140 bresk pund á ári eða rúmlega 27 þúsund krónur, samkvæmt niðustöðum nýrrar könnunar.

Könnunin sem gerð var meðal 1.400 breskra netnotenda fyrir Ebuzzing gaf til kynna að 98% þátttakenda væru ekki til í að greiða fyrir auglýsingalaust internet.

Um 63% aðspurðra sögðust vilja fletta yfir myndbandsauglýsingar á netinu eins fljótt og auðið er auk þess sem 16% aðspurðra nota einhvers konar hugbúnað til að loka fyrir auglýsingar á netinu. Einnig kom fram að um 77% aðspurðra uppfæra aldrei farsímaöpp frá ókeypis útgáfum sem innihalda auglýsingar yfir í auglýsingalausöpp sem greiða þarf fyrir.