Eignarhaldsfélagið Heimavellir GP, sem sér um umsýslu eigna fyrir Heimavelli leigufélag slhf., móðurfélag Heimavalla hf., hafði 270 milljónir króna í umsýslutekjur árið 2017 fyrir ráðgjafastörf fyrir leigufélagið að því er Vísir greinir frá . Umsýslusamningnum við Heimavelli GP var slitið í október síðastliðnum en þóknanagreiðslur til félagsins námu samtals rúmlega 480 milljónum á árunum 2015 til 2017.

Samkvæmt samningnum við Heimavelli GP þá fékk félagið hlutfallslega þóknun sem nam einu prósenti af fasteignamati fjárfestingareigna í rekstri Heimavalla leigufélags á ári, Verkefni Heimavalla GP fólust í greiningu og framkvæmd fjárfestinga en greiðslur til félagsins jukust um meira en 70% samhliða örum vext félagsins.

Stærstu hluthafar Heimavalla GP í ársbyrjun 2017 voru félög í eigu Magnúsar Pálma Örnólfssonar, fjárfestis, Magnúsar Magnússonar, stjórnarformanns Heimavalla, Halldórs Kristjánssonar, stjórnarmanns í Borgun, og Sturlu Sighvatssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Heimavalla en þau fóru samtals með um 95% hlut. Þá áttu Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, og Arnar Gauti Reynisson, fjármálastjóri Heimavalla, báðir 2,5 prósenta hlut í félaginu.