Þrátt fyrir erfiðleika á fjármálamörkuðum út um allan heim horfir evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus björtum augum á framtíðina. Samkvæmt nýrri 20 ára heimsmarkaðsspá Airbus verður þörf fyrir framleiðslu á 26.900 nýjum flugvélum til að mæta eftirspurn fram til ársins 2030. Matsverðið á slíkri framleiðslu er um 3.500 milljarðar Bandaríkjadala samkvæmt spá flugrisans.

Til samanburðar má geta þess að í 20 ára markaðsspá Airbus í fyrra var gert ráð fyrir um 26 þúsund nýjum vélum á tímabilinu að andvirði 3.200 milljarða dala.

Rætist spá Airbus má gera ráð fyrir að farþegaflugsflotinn í heiminum telji um 31.500 vélar árið 2030, sem er tvöföldun frá því sem nú er. Gert er ráð fyrir að vaxtahraði farþegafjölda (sem miðaður er út frá tekjum flugfélaga per farþega) verði um 4,8% á ári að meðaltali á ári.

Binda vonir við stórborgir

Í spá sinni gerir Airbus ráð fyrir auknum vexti í N-Ameríku og Evrópu, sem fyrst og fremst byggist á aukinni flugumferð milli stórborga bæði innan svæðanna sem og yfir Atlantshafið. Þá gerir Airbus jafnframt ráð fyrir velgengni lággjaldaflugfélaga sem þurfi í auknum mæli að endurnýja flota sína með sparneytnari vélum.

Árið 2030 má gera ráð fyrir því að fimm milljarðar manna muni búa í stórborgum (e. mega cities) sem jafnframt mun fjölga úr tæplega 40 frá því sem nú er í tæplega 90, skv. spá Airbus. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að 90% allra farþega í heiminum fljúgi á milli þessara stórborga.

Samkvæmt spánni verður þó mesta eftirspurnin eftir nýjum vélum í Asíu, eða um 34% aukning samanborið við 22% aukinni eftirspurn í N-Ameríku og Evrópu hvort um sig. Þá gerir Airbus ráð fyrir 33% aukningu farþega í Asíu, 23% aukningu í Evrópu og 20% aukningu í N-Ameríku. Þegar litið er til einstakra svæða gerir Airbus ráð fyrir tæplega 10% fjölgun farþega á Indlandi, 7% fjölgun í Kína, 11% í Bandaríkjunum og 7,5% innan V-Evrópu.

Mesta framleiðslan á minni vélum

Þá gerir Airbus ráð fyrir aukinni eftirspurn stærri véla, samanborið við spá Airbus síðan í fyrra, þó svo að mesta eftirspurnin verði áfram eftir minni vélum. Þannig verði eftirspurn eftir tæplega 1.800 vélum sem taka yfir 400 farþega í sæti (t.d. A380 og B747) að andvirði 600 milljarða dala á tímabilinu. Tæplega helmingur þeirra, eða 45%, verður afhentur flugfélögum í Asíu og fjórðungur til flugfélaga í Mið-Austurlöndum.

Þá er gert ráð fyrir afhendingu 6.900 véla sem taka 250 – 400 farþega í sæti (A330, A350, B767, B777) að andvirði 1.500 milljarða dala en samkvæmt þessari spá mun floti véla af þessari stærðargráðu tvöfaldast á tímabilinu.

Sem fyrr verður þó mesta framleiðslan á minni vélum sem taka 100 – 250 manns í sæti (A320, B737) en Airbus gerir ráð fyrir að 19.200 slíkar vélar verði afhentar á næstu 20 árum. Andvirði þeirra er um 1.400 milljarðar dala. Um 40% þeirra verða nýttar til að leysa af eldri vélar og um helmingur véla af þessari stærðargráðu verður afhentur flugfélögum í N-Ameríku og Evrópu.