Rekstur Lýsingar hf. hefur gengið mjög vel fyrstu sex mánuði ársins og var hagnaður eftir skatta 274,9 m.kr. Útlán jukust um 14,5% og voru 34.387 m.kr. í lok tímabilsins. Viðskiptamönnum, fyrirtækjum og einstaklingum, fjölgaði verulega á tímabilinu. Þá var staða vanskila mjög góð og afskrifaðar tapaðar kröfur 0,27% af útlánum í upphafi árs en meðaltal sl. 5 ára er 0,4%. Heildarniðurstaða efnahagsreiknings var í lok tímabilsins 36.794 m.kr.


Eigið fé Lýsingar hf. var í lok tímabilsins 3.188 m.kr. og víkjandi skuldir 189,9 m.kr. Eiginfjárhlutfall reiknað skv. lögum er 10,0%.

Þetta er fyrsti árshlutareikningur sem félagið gerir samkvæmt alþjóðlegum reikningsstöðlum. Engar breytingar urðu á opnunarefnahagsreikningi 1. janúar 2004 en fjárhæðum í opnunarefnahagsreikningi 1. janúar 2005 hefur verið breytt til samræmis við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Í eftirfarandi töflum og skýringum má sjá hvaða áhrif breytingin frá íslenskum reikningsskilaaðferðum til alþjóðlegra reikningsskilaaðferða hefur haft á fjárhagsstöðu félagsins í þúsundum króna.

Lýsing hf. er dótturfyrirtæki Vátryggingafélags Íslands hf. en Kaupþing banki hf. seldi allt sitt hlutafé í félaginu til Vátryggingafélags Íslands hf. á tímabilinu. Félagið hefur að markmiði að þjóna íslensku atvinnulífi á traustan og faglegan hátt með því að bjóða eignarleigusamninga um atvinnutæki og húsnæði, auk lána til tækjakaupa og verkábyrgðir. Einnig býður félagið fjármögnun einkabíla fyrir einstaklinga með bílasamningum og bílalánum Lýsingar hf.

Dótturfélag Lýsingar hf. Eik fasteignafélag hf. var selt til Kaupþings banka hf. á árinu.