Samanlagður fjöldi sýninga í atvinnuleikhúsum á síðasta leikári var 1.158. Fjöldi leikhúsgesta stóð nánast í stað frá leikárinu á undan, eða hátt í 276 þúsund. Að meðaltali eru því um 238 gestir á hverri sýningu atvinnuleikhúsanna. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Á síðasta leikári voru starfrækt sex atvinnuleikhús með aðstöðu í fimm leikhúsum. Á vegum þeirra voru 12 leiksvið sem rúmuðu 2.853 gesti í sæti. Settar voru á svið 93 uppfærslur í leikhúsunum á eigin vegum eða í samstarfi við aðra. Uppfærslum fjölgaði um sjö frá fyrra leikári. Af tegund einstakra verka sem voru færð á fjalirnar voru leikrit flest, eða 49 talsins. Uppfærslur með verkum eftir íslenska höfunda voru 40, en eftir erlenda 36. Uppfærslur eftir innlenda og erlenda höfunda voru 17 samkvæmt samantekt Hagstofunnar.

Atvinnuleikhópar sýnu 726 sinnum

Atvinnuleikhópar sem settu upp eina eða fleiri leiksýningu á síðasta leikári voru 46 talsins samanborið við 39 leikárið 2007/2008. Á síðasta leikári settu hóparnir á svið 82 uppfærslur innanlands, þar af voru 17 í samstarfi við leikhúsin. Leikrit og verk eftir innlenda höfunda eru uppistaðan í uppfærslum atvinnuleikhópa, eða um tvær af hverjum þremur uppfærslum. Atvinnuleikhópar sýndu innanlands 726 sinnum á leikárinu. Það er um 62% fækkun sýninga milli leikára. Heildaraðsókn að sýningum atvinnuleikhópa á síðasta leikári var 73.470. Sýningargestum atvinnuleikhópa fækkaði um 105 þúsund á síðasta leikári frá næsta leikári á undan og um 139 þúsund frá leikárinu 2006/2007 er gestir á sýningar atvinnuleikhópa voru flestir.