Atvinnuleysi mældist 28% á Grikklandi í nóvember í fyrra. Aðrar eins tölur hafa aldrei áður sést. Vinnumálastofnun Grikklands birti upplýsingarnar í dag og sýna þær að atvinnuleysi jókst á Grikklandi um 0,3 prósentustig frá í október. Gríðarlega hátt atvinnuleysi er í röðum yngra fólks, þ.e. undir 25 ára, eða 61,4%. Atvinnuleysi á Grikklandi er nú tvöfalt meira en á evrusvæðinu.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) dregur í umfjöllun sinni um málið upp afar dökka mynd af stöðu gríska efnahagslífsins. Landsframleiðsla hafi dregist saman um 25% á fjórum árum. Engu að síður séu vísbendingar um að senn horfi til betri vegar.

Í umfjöllun BBC er hins vegar bent á að aðhaldsaðgerðir í kjölfar neyðarlána hafi reynst Grikkjum erfið. Sérstaklega er tekið afram að áður en stjórnvöld fengu fyrsta alþjóðlega lánið, 110 milljarða evra svo stjórnvöld gætu staðið við skuldbindingar sínar, mældist 12% atvinnuleysi.