Icelandair Group skilaði uppgjöri fyrsta ársfjórðungs þessa árs síðastliðinn fimmtudag og ef marka má hræringar á Aðalmarkaði frá birtingu þess, þá var það fjárfestum ekki að skapi.

Að sögn Ragnars Benediktssonar hjá IFS Greiningu var uppgjörið nokkuð í takt við væntingar þeirra. Heilt yfir litið voru tekjur félagsins þó örlítið undir væntingum og kostnaður líka. Að hans mati er það fyrst og fremst vegna lækkandi væntinga stjórnenda að gengið lækkaði.

Hann bendir einnig á að það gæti verið að lækkanirnar hafi verið svo miklar vegna þess að skuldsettir fjárfestar hafi fengið veðkall á bréfum sínum og að það hafi haft keðjuverkandi áhrif á önnur viðskipti, en það hefur ekki fengist staðfest. Ragnar bendir á að 28% aukning hafi verið í fyrirframgreiddum tekjum á tímabilinu.

„Það gefur vísbendingu um að eftirspurnin sé að aukast og að það sé búið að selja marga miða fram í tímann,“ segir hann. „Það var lækkun í þessum lið á síðasta ári, ár frá ári, en það var fyrst og fremst vegna gengisáhrifa. Icelandair fjármagnar sig að miklu leyti með fyrirframgreiddum tekjum þannig að þetta er mikilvæg stærð.“ Aðspurður segist hann vænta góðrar afkomu hjá Icelandair á árinu og að félagið sé vel statt í samanburði við erlend flugfélög.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .