*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 27. janúar 2021 10:39

28 fyrirtæki í gjaldþrot í desember

Um 3.100 launamenn störfuðu hjá fyrirtækjum sem urðu gjaldþrota árið 2020. Fyrirtækjunum fjölgaði um 9% á milli ára.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Af 28 fyrirtækjum sem fóru í gjaldþrot í desember mánuði voru 22 með virkni árið áður, sem er 35% fækkun frá því í desember 2019 að því er Hagstofa Íslands greinir frá.

Á fjórða ársfjórðungi í heild voru 90 fyrirtæki með virkni, en svo teljast fyrirtæki sem eru annað hvort með launþega samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum, tekin til gjaldþrotaskipta.

Það er 28% fækkun frá sama tímabili árið 2019 þegar þau voru 125. Fyrirtæki sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á síðasta ársfjórðungi 2020 höfðu um 657 launamenn að jafnaði árið áður.

Nærri þriðjungur í byggingageira

Í heildina voru þau fyrirtæki sem voru tekin til gjaldþrotaskipta á árinu 2020 með 3.121 launamenn að jafnaði árið áður, en þar af voru 965 hjá fyrirtækjum í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, sem er 61% fjölgun frá árinu 2019.

Hins vegar voru 99 launamenn sem misstu vinnuna í fyrirtækjum í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð á fjórða ársfjórðungi, sem er 61% fækkun frá sama tímabili 2019. Af þeim fyrirtækjum sem fóru í gjaldþrot á tímabilinu voru 24 í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, sem eru 38% færri gjaldþrot en á sama tímabili árið áður.

Á móti fjölgaði um 39%, upp í 25, þeim fyrirtækjum í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar sem fóru í gjaldþrot á ársfjórðungnum.

Í einkennandi greinum ferðaþjónustu var meðalfjöldi launamanna hjá fyrirtækjum sem fóru í gjaldþrot á árinu 2020, um 1.067, sem er um 46% fækkun frá meðalfjölda launamanna gjaldþrota fyrirtækja árið 2019 þegar þeir voru 1975. Hér hefur nokkur áhrif að WOW air varð gjaldþrota í mars 2019.

Hins vegar var meðalfjöldi launamanna fyrirtækja í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar, sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á fjórða ársfjórðungi, um 301 sem var um 54% fjölgun frá sama tímabili 2019.

Færri verslunarfyrirtæki í gjaldþrot

Nærri helmingsfækkun, eða 48%, var á gjaldþrotum fyrirtækja í flokki fyrirtækja í bæði heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum á fjórða ársfjórðungi 2020, og voru þau 12 í heildina.

Loks fækkaði um 36%, niður í 29, þeim fyrirtækjum í öðrum atvinnugreinum sem fóru í gjaldþrot.