Lítil og meðalstór fyrirtæki munu geta fengið um 6 milljónir króna hvert að láni á 1,75% seðlabankavöxtum. Lánið verður til 30 mánaða og þarf ekki að greiða af því fyrsta eina og hálfa árið. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem annar aðgerðapakki stjórnvalda vegna veirufaraldursins var kynntur.

„Þetta er sérstaklega hugsað fyrir fyrirtæki með fáa starfsmenn og með minna en 500 milljónir króna í veltu. Fyrir þau er þetta fyrirgreiðsla sem getur skipt miklu máli en hún verður með 100% ríkisábyrgð sem þýðir að unnt verður að afgreiða fjölda umsókna á skömmum tíma,“ sagði Bjarni.

Umrædd aðstoð girðir ekki fyrir að fyrirtækin geti tekið svokölluð ríkisbrúarlán, sem boðuð voru í aðgerðapakka númer eitt, seinna meir ef þess gerist þörf. Áætlað er að á bilinu átta til tíuþúsund fyrirtæki geti nýtt sér leiðina en meðal annarra skilyrða, auk skilyrðis um hálfan milljarð í ársveltu, er að launakostnaður sé að minnsta kosti 10% og að menn hafi orðið fyrir umtalsverðu tekjufalli vegna veirunnar.

„Við teljum að með þessu séum við að rjúfa vítahring sem annars hefði getað orðið. Verði ekki gripið til úrræðis á borð við þetta geta fyrirtæki, sem ekki hefur orðið fyrir barðinu á veirunni, lent í vanda þar sem reikningar til annarra fyrirtækja, sem hafa orðið fyrir tekjufalli, greiðast ekki. Með þessu tryggjum við greiðsluflæði og fletjum út kúrfuna. Við höfum gert það í heilbrigðiskerfinu og nú þurfum við að gera það í efnhagslegu tilliti líka svo lægðin verði ekki það djúp að margir lendi í atvinnuleysi,“ sagði Bjarni.

Auk þessa verður fyrirtækjum sem gert var að loka starfsemi sinni vegna veirunnar boðið upp á svokallaða lokunarstyrki. Þeir munu nema 800 þúsund krónum á hvern starfsmann en þó að hámarki 2,4 milljónum króna á hvert fyrirtæki. Áætlað er að um 28 milljarðar króna muni fara í umrædda styrki og lánafyrirgreiðslur. Því til viðbótar verður fyrirtækjum veittur sá kostur að fresta skattgreiðslum vegna tekjuársins 2019, sem greiðast hefðu átt á þessu ári, fram á næsta ár.

„Þetta mun auka getu margra til muna til að standa í skilum, borga laun og komast í gegnum tekjufall. Við teljum þetta skynsamlegt að gera þegar við stöndum frammi fyrir svona mikilli efnahagskrísu. Hinn kosturinn, að fyrirtæki geti ekki borgað reikninga eða greitt laun, leiðir af sér miklu dýpri og verri kreppu,“ segir Bjarni.