KB banki hefur gert samkomulag um kaup á danska bankanum FIH. Kaupverðið nemur 84 milljörðum króna (1 milljarði evra) og verða kaupin fjármögnuð með útgáfu nýs hlutafjár til forgangsréttarhafa auk víkjandi lána. FIH er fjárhagslega sterkur banki, með um 73 milljarða í eigið fé og 13,6% eiginfjárhlutfall skv. CAD reglum í lok þriðja ársfjórðungs. Áður en lokauppgjör kaupsamningsins fer fram verða 28 milljarðar króna af eigin fé FIH greiddar út úr bankanum.

Fyrir eftirstandandi 45 milljarða í eigið fé eru greiddar 84 milljarðar króna og er Q hlutfall í viðskiptunum því 1,9 eins og bent er á í Vegvísi Landsbankans í dag. Þar er bent á að þetta sé nokkuð hátt verð miðað við það Q hlutfall sem norrænir bankar eru almennt metnir á. "Við teljum þó ekki endilega að um of hátt verð sé að ræða þar sem samlegðaráhrifin eru veruleg og líklegt að ekki líði á löngu þar til þau verða merkjanleg. Þá má geta þess að matsfyrirtækið Moody's hefur tekið lánshæfismat KB banka til skoðunar vegna mögulegrar hækkunar. Hækkun lánshæfismats lækkar fjármögnunarkostnað og eykur því að óbreyttu virði bankans.," segir í Vegvísi Landsbankans.

Gengi á KB banka miðað við síðasta verðmat Landsbankans (23. febrúar) og núverandi vaxtastig er 276,5 en að sögn þeirra Landsbankamanna verður það tekið til endurskoðunar í ljósi kaupanna. Gengi bréfa í KB banka hækkaði um 12,5% í dag og var 395 við lokun markaðar.