Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, sagði á vaxtafundi í dag að 28 þúsund ársverk hefðu tapast frá júní 2008 til síðustu áramóta.

Fjallað er um þetta í nýjasta hefti Peningamála Seðlabanka Íslands þar sem farið er yfir þjóðhagsspá bankans.

Samkvæmt Peningamálum er talið að vinnuaflsnotkunin hafi dregist saman um 10% árið 2009 frá árinu áður, sem er meiri samdráttur en gert var ráð fyrir í janúar sl.  Í þessu felst að hátt í 28 þúsund ársverk höfðu á síðasta ársfjórðungi 2009 tapast frá því að vinnuaflsnotkunin náði hámarki í aðdraganda kreppunnar á öðrum ársfjórðungi 2008, eða sem samsvarar 16,5% af heildarvinnuaflinu. Minni notkun vinnuafls en í janúarspánni skýrist að mestu af lægra atvinnuþátttökuhlutfalli samkvæmt því sem kemur fram í Peningamálum.

Samdráttur í vinnutíma og starfshlutfalli

Fram kemur að ráða megi af nýjum tölum fyrir árið 2009 í heild og vísbendingum úr vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar um mikinn samdrátt á vinnutíma og starfshlutfalli. Brottflutningur af landinu hafi einnig verið meiri en áður var talið.