Exista, móðurfélag Lýsingar, breytti 28,4 milljörðum króna af skuldum félagsins í nýtt hlutafé 1. apríl síðastliðinn. Þetta staðfestir Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Existu.

Stærstu eigendur Existu, sem á 100% í Lýsingu, eru Arion banki, skilanefndir gömlu bankanna og íslenskir lífeyrissjóðir. Niðurfærslan var hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu Lýsingar sem hófst haustið 2010. Henni er nú lokið og Lýsing uppfyllir nú öll þau skilyrði um eigið fé sem fyrirtækið þarf til að starfa áfram.

Halldór Jörgensson, forstjóri Lýsingar, segir Fjármálaeftirlitið (FME) hafa samþykkt að Lýsing uppfylli öll skilyrði eftirlitsins um eigið fé. Því sé Lýsing ekki lengur rekin á undanþágu frá reglum FME líkt og það hafði verið um margra mánaða skeið.

Öll gögn um fjárhagslega endurskipulagningu Lýsingar hafa verið send til fyrirtækjaskráar og ársreikningur félagsins fyrir árið 2010 liggur fyrir. Hann hefur verið undirritaður og skilað inn til FME.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.