Hagnaður Arion banka nam 6.522 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi og rúmum 28,6 milljörðum króna á árinu. Arðsemi eiginfjár var 13,4% á fjórðungnum og 14,7% á árinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Árið var metár í íbúðalánum en bankinn lánaði alls 211 milljarða króna í íbúðalán og óx íbúðalánasafn bankans um 85 milljarða króna.

Heildareignir námu 1.314 milljörðum króna í árslok, samanborið við 1.173 milljarða króna í árslok 2020. Á skuldahliðinni jukust innlán um 15,3% á árinu og lántaka jókst um 19,3%. Heildar eigið fé nam 195 milljörðum króna í árslok og kom afkoma tímabilsins til hækkunar en til lækkunar komu arðgreiðslur og endurkaup á hlutabréfum bankans.

Eiginfjárhlutfall bankans (CAR hlutfall) var 23,8% í árslok og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 19,6% að teknu tilliti til væntrar arðgreiðslu að fjárhæð 22,5 milljarðar króna og 4,3 milljarða króna eftirstöðva á gildandi endurkaupaáætlun sem byggir á heimild Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands frá því í október.

Í tilkynningu segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion, að íslenskir lífeyrissjóðir hafi átt tæplega 47% hlutafjár í bankanum í árslok. Jafnframt hafi rúmlega 90% hluthafa verið íslenskir. Fjöldi hluthafa í árslok var um 11.300 og fjölgaði um meira en 50% á árinu.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:

„Starfsemi Arion banka gekk vel á árinu 2021 þrátt fyrir að heimsfaraldur og samkomutakmarkanir hafi sett mark sitt á árið. Bankinn náði öllum sínum rekstrarmarkmiðum og vann að fjölmörgum spennandi verkefnum með viðskiptavinum sínum. Á þessu ári unnum við með fjölda fyrirtækja að spennandi verkefnum eins og útboð Arctic Fish, Play, Íslandsbanka og Solid Clouds eru góð dæmi um. Einnig kom bankinn að lána- og ráðgjafarverkefnum stórra fyrirtækja í lyfja-, smásölu-, fjarskipta- og byggingargeirunum.“