288 þúsund ný störf urðu til í Bandaríkjunum í síðasta mánuði og atvinnuleysi mældist 6,1 prósent, að því er fram kemur á vef Financial Times. Gefur það vísbendingar um stöðugan bata á bandarískum vinnumarkaði.

Tölurnar um vinnumarkaðinn, sem voru birtar í dag, líta mun betur út en sérfræðingar höfðu spáð. Störfum fjölgaði talsvert meira í júní en í maí og atvinnuleysi lækkaði um 0,2 prósentustig. Þetta er fimmti mánuðurinn í röð þar sem fleiri en 200 þúsund ný störf verða til í Bandaríkjunum. Þátttaka á vinnumarkaði hélst hins vegar óbreytt milli mánaða, eða 62,8%, sem þýðir að lægra atvinnuleysi orsakast af því að fleiri fengu ný störf en þeir sem duttu af vinnumarkaði.