Heildarviðskipti með hlutabréf á árinu námu 89 milljörðum eða 356 milljónum á dag.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá kauphöllinni, Nasdaq OMX Iceland. Veltan er nokkru meiri en í fyrra þegar hún nam um 69 milljörðum króna og nemur aukningin því 29%.

Á árinu voru mest viðskipti með bréf Marel eða fyrir um 27,4 milljarða. Næst á eftir komu viðskipti með Icelandair Group sem námu 26,3 milljörðum króna, viðskipti með bréf Haga námu 20, 5 milljörðum. Mest hækkuðu bréf Icelandair eða um 63% en bréf Haga hækkuðu um 39%. Á First North markaðnum hækkaði verð bréfa Hampiðjunnar mest eða 124%. Úrvalsvísitalan stendur í í 1059 stigum og hækkaði um 16,8% á árinu.

Viðskipti með skuldabréf voru þó töluvert meiri en með hlutabréf því heildarviðskipti með skuldabréf námu 2.324 milljörðum á árinu sem samsvarar 9,3 milljarða veltu á dag, samanborið við 10,3 milljarða veltu á dag árið 2011. Á árinu hækkuðu allar skuldabréfavísitölur Kauphallarinnar. Mest hækkaði 10 ára verðtryggða vísitalan, eða um 8,1%  og næst mest 5 ára óverðtryggða vísitalan, eða um 6,8%.