Icelandair gerir ráð fyrir tæplega 21 þúsund flugferðum í sumar, eða frá apríl til október. Þetta kemur fram í talnagögnum Isavia . Í gögnunum má sjá að Icelandair ráðgerir að nota nýju Boeing 737 Max8 og Max9 í ríflega 6.100 ferðum. Þetta þýðir að flugfélagið hyggst nota vélarnar í 29% af sínum flugferðum í sumar.

Eins og mörgum er kunnugt er búið að kyrrsetja 737 Max-vélar eftir að tvö mannskæð slys urðu með fimm mánaða millibili. Í dag er Icelandair með þrjár 737 Max vélar, en hafði gert ráð fyrir að taka sex til viðbótar í notkun á þessu ári. „Ef þetta dregst á langinn hefði þetta áhrif á okkur og öll flugfélög sem eru með þessar vélar,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group , í viðtali í Viðskiptablaðinu fyrir viku.