Hagnaður af starfsemi bresku matvörukeðjunnar Iceland hækkaði um 15% á síðasta ári og nam þegar upp var staðið 155 milljónum punda, um 29 milljörðum króna. Frá þessu greinir Reuters og segir sölu fyrirtækisins hafa aukist um 2,1% í fyrra.

Iceland er sem kunnugt er að mestu í eigu skilanefndar Landsbankans sem nú hefur sett 67% hlut sinn í félaginu í sölumeðferð. Reuters hefur eftir Malcolm Walker, forstjóra og stofnanda Iceland, sem fer fyrir hópi stjórnenda sem samanlagt eiga 23% hlut í félaginu að hann telji sig geta fjármagnað kaup á hluti Landsbankans. „Fjármögnun er auðveld hvað okkur varðar,“ segir Walker og bætir við að reksturinn gangi vel auk þess sem skilyrði á lánamörkuðum fari batnandi.