Hrein skráð nýfjárfesting erlends fjármagns að undanskilinni endurfjárfestingu, sem er innflæði að frádregnu útflæði, nam 29 milljörðum króna á árinu 2019 samkvæmt gögnum frá Seðlabanka Íslands og jókst um 8,2 milljarða króna á milli ára. Innflæði á árinu nam 70,3 milljörðum króna og jókst um 27,1 milljarð á meðan útflæði á árinu nam 41,2 milljörðum og jókst um 19,9 milljarða milli ára.

Þrátt fyrir að innflæðishöftum hafi verið aflétt í mars á þessu ári jókst innflæði í ríkisskuldabréf einungis um 14,6 milljarða og nam 19,5 milljörðum á árinu. Þess má geta að ekkert innflæði var í ríkisskuldabréf síðustu fjóra mánuði ársins. Aftur á móti jókst innflæði í innlend hlutabréf um 25,9 milljarða og nam 44,4 milljörðum á árinu. Útflæði er ekki sundurliðað í gögnum Seðlabankans en þó kemur fram í skýrslu peningastefnunefndar til Alþingis að útflæðið hafi að mestu verið vegna sölu á hlutabréfum.