Um 358 m.kr. hagnaður varð af rekstri Og Vodafone fyrstu 9 mánuði ársins 2004 fyrir skatta. Reiknaður tekjuskattur félagsins nam 65 m.kr. á tímabilinu en félagið greiðir ekki skatt vegna uppsafnaðs taps fyrri ára. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins fyrir skatta hins vegar 467 m.kr. Sé tekið tillit til reiknaðs skatts nam hagnaður félagsins 292 m.kr. fyrstu 9 mánuði ársins 2004 samanborið við 381 m.kr. tap fyrir sama tímabil í fyrra. Áframhaldandi vöxtur er á starfsemi félagsins en sölutekjur námu 5.064 m.kr. fyrstu 9 mánuði ársins 2004 í samanburði við 4.593 m.kr. á síðasta ári. Þetta er 10% aukning sölutekna.

Sé horft sérstaklega til þriðja ársfjórðungs 2004 jukust sölutekjur um 9% frá sama tíma í fyrra. EBITDA af reglulegri starfsemi í fjórðungnum nam 528 m.kr. og jókst um rúm 17,8% á milli tímabilanna. EBITDA hlutfall af reglulegri starfsemi þriðja ársfjórðungs var 29,6% samanborið við 27,5% fyrir sama tímabil í fyrra. Að teknu tilliti til óreglulegra liða, sem felur í sér kostnað við starfslok fráfarandi forstjóra, var EBITDA félagsins 465 m.kr. eða 26% af heildarrekstrartekjum.

Og Vodafone hefur hafið aðlögun reikningsskila að alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og endurspeglast það í framsetningu uppgjörs fyrstu 9 mánaða ársins 2004.

Kostnaðarverð seldrar þjónustu nam 2.852 m.kr. fyrstu 9 mánuði ársins og hefur hækkað um 2,8% frá sama tíma í fyrra. Framlegð tímabilsins nam 2.212 m.kr. og hefur hækkað um 22% frá sama tíma í fyrra þegar hún nam 1.817 m.kr. Rekstrarhagnaður á fyrri árshelmingi 2004 nam 642 m.kr. í samanburði við rekstrartap á sama tíma í fyrra upp á 125 m.kr.

Hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 1.389 m.kr. eða 27,3% fyrstu 9 mánuði þessa árs.

?Afkoma félagsins er í öllum meginatriðum í takt við áætlanir félagsins. Við erum að sjá stöðugleika í rekstrinum og samfelldan hagnað það sem af er þessu ári. Þótt samkeppni hafi harðnað á fjarskiptamarkaði þá eru horfur ágætar út árið,? segir Viðar Þorkelsson, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Og Vodafone.

Eiginfjárstaða Og Vodafone er sterk og nemur eigið fé 5.880 m.kr. í lok september. Eigið fé hefur því aukist um 488 m.kr. frá áramótum. Þetta skýrist af hagnaði félagsins og aukningu hlutafjár í tengslum við kaup á Margmiðlun hf. en samruni félaganna miðast við 30. september 2004. Veltufjárhlutfall er 1,05 og hefur hækkað frá áramótum en eiginfjárhlutfall nemur 46%.