Óhætt er að segja að dagurinn í dag, 6. október, marki stærstu tímamótin í íslenska bankahruninu en það var á þessum degi fyrir 3 árum sem Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra flutti hina viðfrægu „Guð blessi Ísland“ ræðu.

Síðar um kvöldið samþykkti Alþingi neyðarlög og morguninn eftir var fyrsti bankinn tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu.

Þetta var á mánudegi en nær öll helgin þar á undan hafði farið í krísufundi þar sem reynt var að forða fjármálakerfinu frá hruni. Frægir eru fundirnir í Ráðherrabústaðnum þar sem ríkisstjórnin, bankamenn og embættismenn örkuðu inn og út af fundum alla helgina. Lítið var vitað um innihald þeirra funda fyrr en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út.

En í tilefni dagsins er vert að rifja upp atburði og aðdraganda þessa örlagaríka dags. Viðskiptablaðið hefur á vef sínum sl. 2 ár rifjað upp helstu atburði síðustu daga setningu neyðarlaganna.

Réttast er að byrja á fréttum Viðskiptablaðsins föstudaginn 3. október 2008. Í blaðinu þann dag voru sagðar fréttir af því að ástandið á íslenskum fjármálamarkaði hefði versnað svo í vikunni að flest benti til þess að allt kerfið lægi nú undir, ekki aðeins Glitnir sem þjónýttur hafði verið í upphafi vikunnar. Í frétt blaðsins kom fram að erlendir fjárfestar héldu að sér höndum gagnvart Ísland líkt og það væri holdveikissjúklingur.

Viðskipti í Kauphöllinni fóru rólega af stað þennan dag og þá sérstaklega á gjaldeyrismarkaði. Úrvalsvísitalan, sem lækkað hafði um tæpa 6% daginn áður, hélt þó áfram að lækka en þó í litlum viðskiptum.

Í hádegisfréttum RÚV þennan sama dag, 3. október 2008, sagði Geir H. Haarde að sparifjáreigendur þyrftu ekki að óttast um innstæður sínar og engin ástæða væri til að taka þær út úr banka. Hann sagði einnig að ekki væri komið að neinu greiðsluþroti bankanna en þeir væru þó í varnarbaráttu.

En það voru fleiri fréttir Ríkisútvarpsins sem vöktu athygli þennan dag. Um morguninn fullyrti Gylfi Magnússon, þá dósent við Hí, að bankarnir væru í raun og veru gjaldþrota. Sigurður Einarsson, þá stjórnarformaður Kaupþings, svaraði því til að trúverðugleiki HÍ nálgaðist gjaldþrot.

Þá sagði Bloomberg fréttaveitan frá því eftir hádegi, og hafði eftir Tryggva Þór Herbertssyni, þá efnahagsráðgjafa forsætisráðherra, að unnið væri að því vinna áætlun þess efnis að dæla fé inn í fjármálakerfið.

Stuttu síðar, eða um kl. 14.30, sendi Þorsteinn Már Baldvinsson, þá stjórnarformaður Glitnis, frá sér tilkynningu þar sem hann hvatti hluthafa Glitnis að samþykkja tilboð ríkisins um yfirtöku á bankanum.

Ljóst var við lokun markaða á föstudeginum að hlutabréf hefðu lækkað óheyrilega í verði en Úrvalsvísitalan hafði þá lækkað um 27%  í vikunni.