Helgin 4. – 5. október 2008 mun líklega lifa lengi í minningu þeirra sem fylgdust með krísufundum og neyðaraðgerðum stjórnmálamanna og bankamanna þar sem fundað var um lausnir til að bjarga íslenska bankakerfinu.

Óhætt er að segja að dagurinn í dag, 6. október, marki stærstu tímamótin í íslenska bankahruninu en það var á þessum degi fyrir 3 árum sem Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra flutti hina viðfrægu „Guð blessi Ísland“ ræðu. Síðar um kvöldið samþykkti Alþingi neyðarlög og morguninn eftir var fyrsti bankinn tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu. Viðskiptablaðið rifjar hér upp síðustu daga í aðdraganda þess að neyðarlögin voru sett.

Þetta var á mánudegi en nær öll helgin þar á undan hafði farið í krísufundi þar sem reynt var að forða fjármálakerfinu frá hruni. Frægir eru fundirnir í Ráðherrabústaðnum þar sem ríkisstjórnin, bankamenn og embættismenn örkuðu inn og út af fundum alla helgina. Lítið var vitað um innihald þeirra funda fyrr en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út.

En í tilefni dagsins er vert að rifja upp atburði og aðdraganda þessa örlagaríku helgi.

Mönnum mátti vera ljóst föstudaginn 3. október að það hrikti í stoðum fjármálakerfisins. Við lok markaða á föstudeginum hafði Úrvalsvísitalan lækkað um 27% á einni viku. Fyrir utan það mátti greina titring í öllu kerfinu og hvert sem leitað var mátti heyra mikla spennu en umfram allt óvissu.

Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, hafði á föstudeginum sé ástæðu til aða taka það sérstaklega fram að sparifjáreigendur þyrftu ekki að óttast um innstæður sínar og engin ástæða væri til að taka þær út úr banka. Hann sagði einnig að ekki væri komið að neinu greiðsluþroti bankanna en þeir væru þó í varnarbaráttu.

Robert Peston, viðskiptaritstjóri BBC, skrifaði á vef sinn laugardaginn 4. október að besta leiðin til að skoða Ísland væri að sjá það sem land sem breytti sjálfu sér í risavaxinn vogunarsjóð. Pistil sinni endaði hann á því að erfitt væri að sjá hvernig Íslendingar myndu leysa málin án utanaðkomandi hjálpar.

Sama dag hófust fyrrnefndir fundir í Ráðherrabústaðnum. Þar kallaði Geir H. Haarde flesta til sín sem eitthvað höfðu að gera með stjórn eða rekstur stærstu bankanna, auk seðlabankastjóra, aðra ráðherra, aðila vinnumarkaðarins og fleiri.

Kl. 17 var greint frá því að þá stæði yfir fundur ríkisstjórnarinnar með aðilum vinnumarkaðarins í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar á fundinum sátu þau Geir Haarde forsætisráðherra, Árni Mathiesen fjármálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra (sem þá var einnig settur utanríkisráðherra í fjarveru Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur).

Fundinn sátu jafnframt forseti og framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, þeir Grétar Þorsteinsson og Gylfi Arnbjörnsson, auk Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

Fyrr um daginn höfðu fulltrúar ríkisstjórnarinnar átt fund með aðilum af fjármálamarkaði, en meðal þeirra sem sátu þann fund voru Hreiðar Már Sigurðsson, þá forstjóri Kaupþings og Sigurður Einarsson, þá starfandi stjórnarformaður bankans.

En það var fleira sem vakti athygli á laugardeginum. Mark Sismey-Durrant, sem þá var yfirmaður IceSave í Bretlandi, sagði í dag í viðtali við BBC-4 að eigendur IceSave-innlánareikninga þyrftu ekki að óttast um sparifé sitt.

„Áhyggjur af ástandi bankans eru óþarfar. Um 63% af okkar fjármögnun eru innlán, svo að lausafjárstaða bankans er sterk,” segir Sismey-Durrant, og jánkaði þegar hann var spurður um hvort innistæður sé hægt að taka út hvenær sem er. Það reyndist þó ekki rétt.

Um kvöldmatarleytið ræddi Geir Haarde við fjölmiðla, sem beðið höfðu fyrir utan ráðherrabústaðinn  allan daginn, og sagði að lífeyrissjóðir ynnu nú samstarfi við yfirvald um að koma með aukinn gjaldeyri inn í landið. Sjóðirnir myndu að öllum líkindum selja einhverjar eða allar erlendar eignir sínar. Geir gat ekki greint frá um hversu háar upphæðir væri að ræða. Þá gat hann ekki, aðspurður, lofað því að aðgerðapakki yfirvalda yrði reiðubúinn fyrir opnun markaða á mánudagsmorgun.

Spurður um hvort fjármálafyrirtæki hygðust selja erlendar eignir gat Geir ekki svarað því til, en sagði þó að slíkt væri möguleiki. Geir vildi ekki segja til um hversu mikla styrkingu krónunnar þessar aðgerðir gætu leitt af sér: Það mun markaðurinn einn ákveða, sagði Geir.

Inntur eftir því hvers vegna Seðlabanki Íslands hefði ekki nýtt sér gjaldeyrisskiptasamninga við norræna seðlabanka, sagði Geir að Seðlabankinn myndi gera það ef hann teldi þess þörf. Spurður um hvort gjaldeyrisskortur í landinu kallaði ekki a virkjun þessara samninga, sagðist Geir ekki vilja svara fyrir Seðlabankann.