Helgin 4. – 5. október 2008 mun líklega lifa lengi í minningu þeirra sem fylgdust með krísufundum og neyðaraðgerðum stjórnmálamanna og bankamanna þar sem fundað var um lausnir til að bjarga íslenska bankakerfinu.

Óhætt er að segja að dagurinn í dag, 6. október, marki stærstu tímamótin í íslenska bankahruninu en það var á þessum degi fyrir 2 árum sem Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra flutti hina viðfrægu „Guð blessi Ísland“ ræðu. Síðar sama dag voru neyðarlögin svokölluðu samþykkt og morguninn eftir var fyrsti bankinn yfirtekinn af stjórnvöldum.

Sunnudagurinn 5. október 2008 var um margt fréttnæmur. Þá héldu krísufundir í ráðherrabústaðnum áfram en á laugardeginum hafði Geir H. Haarde, ásamt Árna Mathiesen, Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni fundað stíft með aðilum vinnumarkaðarins, bankamönnum og embættismönnum.

Veðrið þennan dag var napurlegt, haustgola og kuldi. Um kvöldið rigndi auk þess sem köld haustgolan minnti menn reglulega á hvar þeir voru staddir.

Í prentútgáfu breska blaðsins Telegraph á sunnudagsmorgninum greindi blaðið frá því að íslensk ynnu að því að undirbúa björgunaráætlun sem fælu meðal annars í sér að íslenskir lífeyrissjóðir selji erlendar eignir sínar og færi þannig fjármagn auk þess að gerðir verði samningar við norræna seðlabanka um fjármagnsinnspýtingu. Þetta var í takt við ummæli Geirs frá kvöldinu áður.

Um hádegisbilið hafði breska blaðið Times eftir Sigurði Einarssyni, þá stjórnarformanni Kaupþings, að slæmir orðrómar um bankann yllu forsvarsmönnum hans áhyggjum. Hann sakaði fjölmiðla um æsifréttamennsku og að nauðsynlegt væri að líta á þá staðreynd að um 70% starfsemi Kaupþings væri utan Íslands.

Þá sendi Sigurður jafnframt tilkynningu á erlenda fjölmiðla þar sem hann sagði að lausafjárstaða bankans væri tryggð til 360 daga.

Geir vildi umboð til aðgerða

Áfram héldu menn að streyma inn og út úr ráðherrabústaðnum. Fyrir utan ráðherra og embættismenn sem komu á fundi var þar staddir hagfræðingarnir Jón Steinsson, Friðrik Már Baldursson og Tryggvi Þór Herbertsson sem þá var efnahagsráðgjafi forsætisráðherra.

„Við skulum sjá hvernig þetta þróast," sagði Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, þegar hann var spurður hvort bankakerfi landsins geti starfað eðlilega daginn eftir ef ekki kæmi til útspil frá ríkisstjórninni. Þetta var rétt fyrir kl. 13 á sunnudegi.

Hann sagði að tilkynnt yrði um aðgerðir ríkisstjórnarinnar um leið og þær lægju fyrir. Björgvin svaraði í engu spurningum um hvort verið væri að útvega lán frá erlendum bönkum og hvort eignir banka erlendis yrðu færðar til landsins. Hann sagði allar þessar leiðir til skoðunar og allir væru einhuga um að sigrast á vandanum.

Stuttu síðar kom Jónas Fr. Jónsson, þá forstjóri Fjármálaeftirlitsins, á fund Geirs í ráðherrabústaðnum. Í millitíðinni hafði Geir kallað marga af helstu forystumenn Sjálfstæðisflokksins til sín á meðan ráðherrar Samfylkingarinnar voru þar enn. Björn Bjarnason, þá dómsmálaráðherra, yfirgaf húsið skömmu á eftir ráðherrum Samfylkingarinnar, og síðar yfirgáfu Einar K. Guðfinnsson, þá sjávarútvegsráðherra, Sturla Böðvarsson, þá forseti Alþingis og Arnbjörg Sveinsdóttir, þá þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, húsið.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins þá var talið að Geir hefði kallað flokksmenn sína saman til að tryggja sér umboð fyrir ákveðnum þáttum þeirra aðgerða sem nú eru á borði ríkisstjórnarinnar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þá varaformaður Sjálfstæðisflokksins, staðfesti við blaðamenn um kl. 16. að forsætisráðherra myndi daginn eftir kynna efnahagsaðgerðir vegna ástandsins.

Bankamenn funda í Exista húsinu

Um kaffileytið bárust fréttir af því að Björgólfur Thor Björgólfsson, þá stjórnarformaður Samson og Straums, og  Halldór J. Kristjánsson, þá bankastjóri Landsbankans, væru staddir á fundi í húsi Exista við Tjarnargötu, steinsnar frá Ráðherrabústaðnum. Þar voru einnig á fundi Lýður og Ágúst Guðmundssynir, kenndir við Bakkavör, aðaleigendur Exista, ásamt Hreiðari Má Sigurðssyni, þá forstjóra Kaupþings.

Ekkert var þá vitað um það sem þeim fór í milli en forystumenn í fjármálaheiminum höfðu verið á þönum um alla borg í dag að funda um það alvarlega ástand sem þá blasti við íslensku efnahagslífi.

Stuttu síðar, eða um kl. 17, gengu Hreiðar Már Sigurðsson og Ingólfur Helgason, forstjórar Kaupþings inn til fundar í Ráðherrabústaðnum. Einnig gengu til fundar Halldór J. Kristjánsson, Björgólfur Thor og Friðrik Már Baldursson, prófessor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík.

Tæpri klukkustund síðar yfirgáfu þeir bústaðinn en þá gekk Jón Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra og fyrrverandi seðlabankastjóri á fund Geirs en Jón var þá stjórnarformaður formaður FME.

Aðilar vinnumarkaðarins koma á fund – ríkisstjórn og þingflokkar funda seinna um kvöldið

„Það verður að koma í ljós hvort aðgerðaáætlun er réttnefni eða ekki ,“ sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, við blaðamenn um kvöldmatarleytið aðspurður um þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hafði undirbúið.

Að öðru leyti sagði Geir fátt um hvaða aðgerðir eru í vændum hjá ríkisstjórninni en gaf til kynna að þótt vonandi yrði gefin út yfirlýsing fyrir opnun markaða í fyrramálið myndu sum þeirra atriða sem menn hafa rætt um að væru í undirbúningi geta beðið í nokkra daga til viðbótar.

Aðilar vinnumarkaðarins komu á ný til fundar við ríkisstjórnina í Ráðherrabústaðnum klukkan átta um kvöldið. Geir hafði áður sagt við blaðamenn að æskilegt væri að framlengja sem fyrst kjarasamninga sem ella yrðu lausir á almennum vinnumarkaði og hjá opinberum starfsmönnum í febrúar eða mars á næsta ári.

Hann sagðist ekki vilja svara spurningum um hvort fyrir lægju samningar við erlenda seðlabanka um fyrirgreiðslu og vísaði spurningum um það atriði á Seðlabankann en sagði engin áform um að skipta um forystu í Seðlabankanum.

„Það eru vissulega erfiðir tímar,“ sagði Geir og sagði að nú væri mesta kreppa á alþjóðafjármálamörkuðum síðan 1914.

„Það er ekki skrítið að hún hafi sín áhrif á Íslandi eins og í nálægum löndum.“

Össur og Jóhanna sátu flesta fundi dagsins. Þegar klukkar var orðin rúmlega 9 um kvöldið, þegar fundi með aðilum vinnumarkaðarins var lokið, var öll ríkisstjórnin saman komin í ráðherrabústaðnum. Í millitíðinni höfðu Lárus Welding, þá forstjóri Glitnis, Þorsteinn Már Baldvinsson, þá stjórnarformaður Glitnis og Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, komið og farið af fundi með ríkisstjórninni.

Þeir vildu ekkert tjá sig um það sem fram fór á fundinum.

Um kl. 22 mættu þeir Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson á fund ríkisstjórnarinnar en stoppuðu stutt við. Auk þeirra sat Jón Sigurðsson fundinn.

Kl. 22 hófst þingflokksfundur Samfylkingarinnar og klukkutíma síðar fundaði þingflokkur Sjálfstæðisflokksins.

Engin ákvörðun

Um kl. 23 kom Geir út úr ráðherrabústaðnum og ræddi við blauta og kalda blaðamenn sem staðið höfðu fyrir utan ráðherrabústaðinn bróðurpart úr degi.

Skilaboð Geirs voru stutt og skilmerkileg; Engin sérstök ákvörðun hefur verið tekin um aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna efnahagsástandsins hér á landi. Þá sagði hann að enn væri verið að fara yfir stöðu mála.

Geir sagði að ekki væri þörf á sérstökum „pakka með aðgerðum," eins og hann orðaði það og sagði að minni spenna ríkti nú en fyrir helgi. Aðspurður um lán frá norrænum seðlabönkum sagði Geir að ekkert slíkt lægi fyrir.

Hann sagði þó að samkomulag hefði náðst um að bankarnir myndu minnka umsvif sín erlendis með því að losa eignir. Hann sagði að gott samstarf hefði verið við viðskiptabankana um helgina en vildi ekki segja nánar til um hvað samkomulagið fæli nákvæmlega í sér.