Óhætt er að segja að dagurinn í dag, 6. október, marki stærstu tímamótin í íslenska bankahruninu en það var á þessum degi fyrir 2 árum sem Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra flutti hina viðfrægu „Guð blessi Ísland“ ræðu. Sama dag voru neyðarlögin sett og morguninn eftir var fyrsti bankinn yfirtekinn af stjórnvöldum.

Viðskiptablaðið hefur í dag rifjað upp helstu fréttir og aðdraganda dagana fyrir hrunið eins og sjá má í tengdum fréttum hér til hliðar.

6. október 2008 var mánudagur en alla helgina höfðu krísufundir farið fram í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu sem og á fleiri stöðum í Reykjavík. Eftir stanslaus fundarhöld á sunnudeginum ræddi Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, við blaðamenn undir miðnætti og sagði að engin ákvörðun hefði verið tekin um aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna efnahagsástandsins hér á landi.

Aðfaranótt mánudags sendi ríkisstjórnin þó frá sér tilkynningu þar sem sérstaklega var tekið fram að allar innstæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi yrðu tryggðar að fullu.

Öllum bönkunum var send sama tilkynning, og beðið um að hún yrði hengd upp fyrir allra augum, meðal annars hjá gjaldkerum í útibúum bankanna.

Fyrir utan þetta var morguninn í sjálfu sér tíðindalítill. Þó gerðist það fljótlega eftir opnun markaða að Kauphöllin setti Exista, Landsbankann, Straum Burðarás, Kaupþing, Spron og Glitni á athugunarlista fyrir töku hlutabréfa til viðskipta, „vegna umtalsverðrar óvissu varðandi verðmyndun vegna hættu á ójafnræði meðal fjárfesta,“ eins og það var orðað í tilkynningu frá Kauphöllinni.

Rétt fyrir kl. 10 um morguninn, sagði BBC frá því að stærstu bankar Íslands hefðu samþykkt að selja hluta erlendra eigna sinna og vitnaði til orða Geirs frá deginum áður. Aldrei var þó gengið frá slíku samkomulagi.  Um svipað leyti var haft eftir Anders Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, á blaðamannafundi að hann hefði töluverðar áhyggjur af ástandinu hér á landi.

Viðskipti með fjármálafyrirtækin stöðvuð

Upp úr kl. 10 fór þó að draga til tíðinda. Þá ákvað Fjármálaeftirlitið (FME) að stöðva tímabundið viðskipti með alla fjármálagerninga sem gefnir eru út af Exista, Glitni, Kaupþingi, Landsbankanum, Straumi-Burðarási og Spron.

Í tilkynningu frá FME kom fram að það væri mat FME að aðstæður umræddra útgefanda séu þannig að viðskiptin mundu skaða hagsmuni fjárfesta, „enda ríkir umtalsverð óvissa sem kemur í veg fyrir eðlilega verðmyndun verðbréfanna,“ eins og það var orðað í yfirlýsingu FME vegna þessa.

Eins og gefur að skilja var lítil velta með hlutabréf í Kauphöllinni þennan dag.

Geir biður um að fá að ávarpa þjóðina

Eftir þetta voru fréttir af gangi mála mjög misvísandi. Enginn vissi í raun og þeir sem eitthvað vissu vildu ekkert segja.

Mörgum brá þó þegar tilkynnt var rétt fyrir kl. 15 að Geir H. Haarde hefði óskað eftir því við sjónvarpsstöðvarnar að fá að ávarpa þjóðina kl. 16 sama dag. Þá hafði verið boðað til þingfundar strax í kjölfarið. Þá tilkynnti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að rétt eftir kl. 15 að könnunarhópur væri á leið til Íslands með næstu vél. Engar upplýsingar voru þó gefna um hver tilgangur ferðarinnar væri.

Við þetta bættist að rétt fyrir kl. 16 tilkynntu Saga Capital og VBS fjárfestingabanki að stjórnir bankanna hefðu ákveðið að fresta formlegum viðræðum sínum um sameiningu bankanna tveggja í ljósi óvissuástands sem þá ríkti á mörkuðum. Þessi tilkynning hafði auðvitað engin áhrif á gang mála þennan dag en rétt er að minnast á hana engu að síður.

Guð blessi Ísland

Það var síðan kl. 16 sem Geir ávarpaði þjóðina. Þar sagði hann að staða íslensku bankanna væri mjög slæm og að umsvif bankanna væru margfalt það sem íslenska ríkið réði við. Þá sagði Geir að það væri óábyrgt af stjórnvöldum að leggja fram skattfé almennings þeim til bjargar.

„Ég hef óskað eftir því að fá að ávarpa ykkur á þessari stundu, nú þegar miklir erfiðleikar steðja að íslensku þjóðinni,“ sagði Geir í upphafi ávarpsins.

„Heimsbyggðin öll gengur nú í gegnum mikla fjármálakreppu og má jafna áhrifum hennar á bankakerfi heimsins við efnahagslegar hamfarir. Stórir og stöndugir bankar beggja vegna Atlantshafsins hafa orðið kreppunni að bráð og ríkisstjórnir í mörgum löndum róa nú lífróður til að bjarga því sem bjargað verður heima fyrir.“

Í ávarpi Geirs kom fram að síðar um daginn yrði lagt fram frumvarp sem fæli í sér breytingar á íslenskri bankastarfssemi. Ekki var farið nánar yfir frumvarpið í ávarpinu.

„Um helgina var fundað nær linnulaust um stöðu fjármálakerfisins. Ég get fullyrt að allir þeir sem komu að því borði reyndu sitt ítrasta til að búa svo um hnútana að starfsemi banka og fjármálastofnana gæti haldið áfram í dag og ávinningur af vinnu helgarinnar gerði það að verkum að í gærkvöldi var útlit fyrir það að bankarnir gætu fleytt sér áfram um sinn,“ sagði Geir meðal annars.

Af þeim sökum gat ég þess í gærkvöldi að það væri mat mitt og ríkisstjórnarinnar að ekki væri ástæða til sérstakra aðgerða af okkar hálfu. Engin ábyrg stjórnvöld kynna afdrifaríkar aðgerðir varðandi banka- og fjármálakerfi sinnar þjóðar nema allar aðrar leiðir séu lokaðar. Þessi staða hefur nú gerbreyst til hins verra. Stórar lánalínur við bankana hafa lokast og ákveðið var í morgun að loka fyrir viðskipti með bankastofnanir í Kauphöll Íslands.“

Í lok ræðunnar bað Geir Guð um að blessa Ísland.

Neyðarlögin samþykkt

Upp úr kl. 17 var frumvarp til neyðarlaga kynnt á Alþingi. Samkvæmt því varð Fjármálaeftirlitinu heimilt að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja með víðtækum hætti vegna sérstakra aðstæðna eða atvika.

„Í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði er mikilvægt að stjórnvöld hafi heimild til að grípa til nauðsynlegra aðgerða, þar á meðal yfirtöku fjármálafyrirtækis, í heild eða að hluta, eftir atvikum með stofnun nýs fjármálafyrirtækis," sagði meðal annars í skýringum frumvarpsins.

Rétt eftir kl. 23 um kvöldi samþykkti Alþingi hin svokölluðu neyðarlög með 50 greiddum atkvæðum. 12 þingmenn Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins sátu hjá við atkvæðagreiðslu.

Fyrr um kvöldið hafði breska blaðið Telegraph fjallað um ástandið hér á landi undir fyrirsögninni; Íslenski draumurinn úti.

Um nóttina, aðfaranótt þriðjudags 7. október, tók FME yfir rekstur Landsbankans og sama dag stofnaði fjármálaráðuneytið Nýja Landsbankann. Að kvöldi þriðjudags tók FME síðan yfir rekstur Glitnis og síðar í vikunni yfir rekstur Kaupþings.