Vegna nýrra aðferða við útreikninga er ekki raunhæft að fjárveitingar til vísinda og nýsköpunar nái þremur prósentum af landsframleiðslu á þessu ári í samræmi við markmið aðgerðaáætlunar Vísinda- og tækniráðs.

Hin nýja aðferð þýðir að reiknuð útgjöld til rannsókna og þróunar eru talsvert lægri en gert hafði verið ráð fyrir þegar aðgerðaáætlunin var samþykkt. Þau námu aðeins 1,89% af landsframleiðslu árið 2014. Þetta kemur fram í svari forsætisráð- herra við fyrirspurn Valgerðar Bjarnadóttur um aðgerðaáætlunina.

Þar kemur einnig fram að á þessu ári eru framlög til samkeppnissjóða um 23% af opinberum framlögum til háskólakerfisins. Hlutfallið var 14% árið 2014 en í aðgerðaáætluninni var lagt upp með að þriðjungur af heildarfjármögnun háskóla og rannsóknarstofnana yrði í formi samkeppnisfjár árið 2016.