Tæpur helmingur af rekstrarkostnaði FL Group á seinasta ári féll til á seinustu þremur mánuðum liðins árs, eða um 3 milljarðar af alls 6,1 milljarða rekstrarkostnaði. Þar af eru 841 milljón vegna rekstrarkostnaðar TM, sem FL Group eignaðist í september síðast liðnum.

Þá kemur fellur stór hluti af milljörðunum þremur til í desember þegar hætt var við yfirtöku á Inspired Gaming Group og uppsafnaður kostnaður vegna yfirtökunnar var gjaldfærður.

Í lok ársins féll einnig til töluverður kostnaður vegna starfslokasamninga.

Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs FL Group, segir að horfa verði á rekstarkostnað í samhengi við umsvif félagsins.

„Hlutfall rekstrarkostnaðar FL 2007 er 1,46% af heildareignum í árslok 2007, eða 6,1 milljarða kostnaður við umsvif í kringum eignasafn uppá 422 milljarða,” segir Júlíus.

„Árið 2006 var þetta hlutfall rétt um 1% hjá FL Group, það er að segja 2,7 milljarðar samanborið við eignir uppá 262 milljarða króna. Ef tölur annarra íslenskra fjármálafyrirtækja eru skoðaðar má sjá að hlutfall rekstarkostnaðar af heildareignum félaganna er á bilinu 1-4%. Það verðru að hafa í huga að árið 2007 var gríðarlega viðburðaríkt í starfsemi félagsins, fyrri hluti ársins einkenndist af mikilli sókn, en seinni hlutinn af vörn.”

Ekkert ákveðið um birtingu

Sá hluti rekstrarkostnaðar sem helst hefur verið gagnrýndur í umræðunni að undanförnu er tilgreindur sem „almennur rekstrarkostnaður” í bókum félagsins og hafa verið uppi miklar getgátur um hvar þar standi að baki.

Júlíus segir að ekki hafi verið teknar ákvarðanir um sundurliðun á þessum kostnaðarlið til birtingar en innan hans falli t.d. kostnaður við húsnæði, þar á meðal flutning og rekstur skrifstofa í London, Kaupmannahöfn og á Íslandi, tölvu- og tæknimál, styrktarmálefni, markaðs- og kynningarkostnaðar, þar á meðal ráðstefnur, ferðalög starfsmanna, þar á meðal flug og hótel og þess háttar, aðkeypt sérfræðiaðstoð og kostnaður vegna upplýsingaveitu.