Vísitala neysluverðs miðað við verðlag í ágúst 2017 hækkar um 0,25% frá fyrri mánuði. Án húsnæðisliðs hækkar hún um 0,18% milli mánaða. Síðastliðna tólf mánuði hefur því vísitala neysluverðs hækkað um 1,7% en vísitalan án húsnæðis hefur lækkað um 3%, það þýðir að umtalsverð verðhjöðnun hefur verið á Íslandi á síðustu tólf mánuðum, ef að húsnæðisliðurinn er tekinn út fyrir sviga.  Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands.

Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 12,6% á milli mánaða og hafði það 0,19% áhrif til lækkunar vísitölunnar. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði hins vegar um 0,5% sem hafði 0,11% áhrif til hækkunar vísitölunnar.

Söguleg verðhjöðnun án húsnæðis

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um í síðasta mánuði hefur verðhjöðnun verið á Íslandi undanfarið ár ef horft er framhjá hækkun húsnæðisverðs og hefur verðhjöðnunin án húsnæðis ekki verið eins mikil í ríflega hálfa öld. Þar hefur styrking krónunnar og aukin samkeppni mikil áhrif til lækkunar, en húsnæðisverð sem hefur hækkað mikið á síðustu misserum haldið lífi í verðbólgunni.

Skiptar skoðanir eru á því hvort að húsnæðisliðurinn eigi að vera í verðbólgumælingum hér á landi. Meðal annars hefur verið bent á að margir seðlabankar, til að mynda Seðlabanki Evrópu og Englandsbanki, miða verðbólgumarkmið sín við verðvísitölu sem inniheldur ekki húsnæðiskostnað.

Verðbólga - með og án húsnæðis
Verðbólga - með og án húsnæðis