Síðan Rauði krossinn gerði samkomulag við ríkið um talsmannaþjónustu fyrir hælisleitendur árið 2014 hefur starfsemi félagsins aukist mikið, með fleiri starfsmönnum og mikilli aukningu tekna. Á sama tíma hefur heildarfjöldi hælisleitenda vaxið mjög hratt, en milli áranna 2015 og 2016 nær þrefaldaðist fjöldi þeirra í 1.132 umsóknir á síðasta ári.

Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins segir Rauða krossinn vaxa með auknum fjölda hælisleitanda í Morgunblaðinu í dag. Hafi tekjurnar vaxið um 30% milli áranna 2015 og 2016, en þá voru þær 2.436 milljónir króna í heildina.

„Samningurinn sem Rauði krossinn er með við íslenska ríkið um að sinna talsmannaþjónustu fyrir hælisleitendur skýrir að mestu leyti aukið umfang,“ segir Brynhildur. Í fyrra veitti ríkið svo 731 milljón króna beint til samtakanna sem var aukning um 357 milljónir frá fyrra ári.

Starf Rauða krossins með hælisleitendum er núna stærsti einstaki liðurinn í starfsemi félagsins hérlendis, en á síðasta ári voru starfsmenn á launaskrá orðnir 100. Árið áður voru þeir 87 talsins, en þess utan segir Brynhildur að um þrjú þúsund manns komi að sjálfboðaliðastarfi á vegum félagsins.