Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir
Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir

Fleiri ábyrgðamenn og erfingjar ábyrgðamanna greiða nú af námslánum þeirra sem hafa fengið lánað hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna en áður, samkvæmt upplýsingum frá LÍN. Málafjöldi í innheimtu í dag þar sem erfingjar eða dánarbú greiða af námslánum er lauslega áætluð um 30. Í fyrra greiddu 83 ábyrgðamenn af námslánum vegna gjaldþrota einstaklinga sem lánin tóku.

Fram kemur í svari Hrafnhildar Ástu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra LÍN, við fyrirspurn Viðskiptablaðsins, er ekki til áreiðanleg tölfræði um málið og tölurnar sem að ofan eru nefndar því með þeim fyrirvara.

Erfingjarnir látni borga

Fram kom í Viðskiptablaðinu í gær að LÍN á í málaferlum við erfingja Steingríms Hermannssonar , fyrrverandi formann Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Sonur Steingríms af fyrra sambandi tók námslán hjá LÍN árið 1983. Steingrímur var ábyrgðarmaður fyrir láninu. Steingrímur lést árið 2010. Þá var sonur hans enn að greiða af láninu. Það var svo ekki fyrr en síðla árs 2012 sem erfingjar að dánarbúi Steingríms voru látnir vita af því að lánið hefði verið í vanskilum frá í mars árið 2010, mánuði eftir að Steingrímur lést. Skuldin nemur rúmum 12 milljónum króna og vill LÍN að erfingjarnir greiði lánið.

Í svari sínu við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um stjórnsýsluframkvæmd við innheimtu lána LÍN, þ.e. að erfingjar ábyrgðarmanna eru krafðir um skuldir svarar Hrafnhildur:

„Gerð er krafa í dánarbú ábyrgðamanna hvort sem þau eru skipt í einkaskiptum eða opinberum skiptum.  Er þetta í samræmi við lög og jafnræði gildir þá milli erfingja ábyrgðamanna hvort sem dánarbú eru skipt í einkaskiptum eða opinberum skiptum.“