*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 16. janúar 2019 13:31

30% fá meira frá ríki en greiða

Helmingur framteljenda greiðir nettó um 1% af tekjuskatti til ríkisins, en fimmtungur greiðir 72% af honum.

Ritstjórn
Ásdís Kristjánsdóttir hélt erindi á skattadegi Deloitte sem vakti athygli.
Haraldur Guðjónsson

Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins segir rétt sem bent hefur verið á að skattbyrði lægstu launa hafi aukist á undanförnum árum, samhliða áherslum á hækkun lægstu launa.

En í erindi hennar á skattadegi Deloitte sem haldinn var í gær benti hún á að ekki megi þar undanskilja að útborguð lágmarkslaun eftir skatta og bótagreiðslur hafi aukist um 17% umfram skattbyrðina frá árinu 2008.

Hún segir það því gefa villandi mynd að horfa einungis til þróunar á skattbyrðinni, ef svara eigi þeirri spurningu hvort heimilin séu betur sett í dag en áður.

Yfir 80% tekna hyrfu ef farið að ítrustu kröfum

Jafnframt bendir hún á að tillögur í kröfugerð sumra verkalýðsfélaganna um algert skattleysi lágmarkslauna muni draga tekjur ríkissjóðs saman um 149 milljarða, eða sem nemur 83% af heildratekjum hans af tekjuskatti einstaklinga.

„Ljóst er að ef slíkar tillögur myndu fram ganga þá myndi skattbyrði annarra aukast verulega,“ segir á vef samtakanna en þar eru jafnframt birt áhugaverð gröf upp úr erindi Ásdísar sem fjallaði einnig um hvernig skattbyrði dreifist milli mismunandi tekjutíunda.

„Tuttugu prósent þeirra sem hafa hæstu tekjurnar á Íslandi greiða í dag til ríkisins 72% af hreinum heildargreiðslum tekjuskatts einstaklinga að teknu tilliti til vaxta og barnabóta. Lægstu fimm tekjutíundir eða helmingur framteljenda stendur undir tæplega 1% af greiddum tekjuskatti til ríkisins og 30% þeirra sem lægstar hafa tekjurnar fá meira greitt úr ríkissjóði í formi bóta en sem nemur staðgreiðslu tekna.“