Á síðustu tólf mánuðum voru gistinætur á íslenskum hótelum ríflega 3,6 milljónir sem er 30% fjölgun ef tekið er mið af sama tímabili árið áður.

Gistinætur á hótelum voru ríflega 332 þúsund í október sem er 37% aukning miðað við október á síðasta ári. Gistinætur erlendra gesta voru 88% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 38% frá sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands .

Flestar voru gistinæturnar á höfuðborgarsvæðinu eða rúmlega 210 þúsund sem er 26% aukning milli ára. Næstflestar voru þær á Suðurlandi eða tæplega 50 þúsund.

Bandaríkjamenn flestir

Af erlendum gestum þá voru Bandaríkjamenn fjölmennastir á íslenskum hótelum eða með 81 þúsund gistinætur, Bretar voru næstfjölmennastir með ríflega 79 þúsund gistinætur og Þjóðverjar gistu 38,6 þúsund nætur.

„Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann“ segir í frétt Hagstofunnar að lokum.