*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 21. janúar 2021 10:14

30% hækkun útgjalda síðustu 5 árin

Útgjöld ríkisins til velferðarmála hafa aukist um nærri helming frá hruni, en tvöföldun hefur verið til umhverfismála.

Ritstjórn
Stjórnarráðið við Lækjargötu stækkar nú.
Haraldur Guðjónsson

Tæplega helmings hækkun hefur orðið á útgjöldum ríkisins til velferðarmála frá hruni en alls nemur hækkunin, sem átt hefur sér stað síðustu fimm árin, til ráðuneyta og stofnana ríkisins numið nærri 30% að því er Fréttablaðið greinir frá.

Þannig nemur hækkunin til velferðarmálaráðuneytanna tveggja, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyta 154 milljörðum króna á tímabilinu, eða 46%, en hjá flestum ráðuneytunum er hækkunin upp á tugi prósenta, þó heildarútgjöldin séu mest hjá þeim tveim fyrrnefndu.

Hækkun útgjalda forsætisráðuneytisins 25%, 26% hjá menntamálaráðuneytinu og 37,5% hjá bæði dómsmála- og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytunum. Langmesta aukningin var þó hjá annars vegar fjármálaráðuneytinu eða um tæplega 66%, og svo nærri tvöföldun hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eða 98,4%.

Í fyrra tilvikinu kom hækkunin til árið 2016 vegna gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga og niðurfærslu á eignarhlutum og hlutafé. Auk þess jukust vaxtagjöld um 13%. Í tilviki síðarnefnda ráðuneytisins bættust við verkefni frá öðrum ráðuneytum, til að mynda frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þar sem útgjöld lækkuðu um 8%.

Jafnframt var 2% samdráttur á framlögum til utanríkisráðuneytisins, og það þó að framlög til varnarmála hafi verið aukin um 25% og um 53% til þróunarsamvinnu, en sendiráðum hefur verið fækkað um fjögur. Loks jókst kostnaður við það sem kallað er æðstu stjórn ríkisins um 37%.