Enn eiga rúmlega 30% skilaskyldra félaga eftir að skila ársreikningi til ríkisskattstjóra. Þetta kemur fram í tölum ríkisskattstjóra sem teknar voru saman á þriðjudag og Viðskiptablaðið hefur undir höndum. Alls voru 33.646 félög skyldug til að senda ríkisskattstjóra ársreikninga, en þeim ber að skila í síðasta lagi 31. ágúst á hverju ári fyrir árið á undan. 23.434 ársreikningum hefur verið skilað, eða 69,6%.

Skil á ársreikningum hafa batnað talsvert undanfarin ár. Á þessum tíma í fyrra höfðu 66,9% félaga skilað ársreikningi fyrir 2012, 59% árið 2012 fyrir árið 2011 og 54,5% árið 2011 fyrir árið 2010. Ríkisskattstjóri sendir út áskorunarbréf til þeirra félaga sem ekki skila innan 30 daga frá skilafresti og voru rúmlega 15 þúsund slík bréf send út í ár. Af þeim hafa rúmlega 6.600 félög nú skilað ársreikningi.