Fyrirtækið The Icelandic Milk and Skyr Corporation, sem var stofnað af Sigurði Kjartani Hilmarssyni árið 2006 er langt komið í viðræðum við áhugasama fjárfesta í Bandaríkjunum um sölu á öllu fyrirtækinu fyrir tæplega 300 milljónir dala sem nemur um 30 milljörðum íslenskra króna, að því er kemur fram á Vísi.is .

Vörur fyrirtækisins eru fáanlegar í um 25 þúsund verslunum í öllum ríkjum Bandaríkjanna og er það með um tveggja prósenta markaðshlutdeild af jógúrtsölu í Bandaríkjunum.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, hafa staðið yfir viðræður við að minnsta kosti tvö umsvifamikil fyrirtæki í mjólkuriðnaðinum vestanhafs.

Sigurður, ættingjar hans, vinir og aðrir sem þeim tengjast eiga nú um 75% hlut í félaginu en þar af á Sigurður sjálfur um 25%. Þá á svissneski mjólkurframleiðandinn Emni Group um fjórðungshlut.