Árið 2017 voru yfir 30 þúsund virk fyrirtæki með rúmlega 134 þúsund starfsmenn. Rekstrartekjur þessara fyrirtækja námu rúmlega 4.000 milljörðum króna. Af virkum fyrirtækjum voru rúmlega 28 þúsund með færri en 10 starfsmenn (94% af heildinni). Hagstofa Íslands greinir frá þessu .

Hjá fyrirtækjum með færri en 10 starfsmenn starfa tæplega 38 þúsund (28%), rekstrartekjur þessara fyrirtækja námu um 908 milljörðum króna (16%) og skiluðu þau 188 milljörðum (38%) í vergan rekstrarafgang (EBITDA). Til samanburðar voru einungis 179 fyrirtæki með 100 starfsmenn eða fleiri, hjá þeim störfuðu 51 þúsund starfsmenn (38%), rekstrartekjur námu 1.800 milljörðum króna (45%) og vergur rekstrarafgangur var 210 milljarðar (43%).