Fyrstu erlendu starfsmennirnir á vegum starfsmannaleigunnar Elju eru á leið til landsins, en fyrirtækið gerir ráð fyrir því að um eða yfir 300 erlendir starfsmenn verði starfandi á Íslandi á vegum fyrirtækisins fyrir lok árs.

Viðskiptablaðið fjallaði í síðustu viku ítarlega um starfsmannaleigur og innlenda starfsmannaþörf landsins á næstunni. Samkvæmt nýlegri greiningu Samtaka atvinnulífsins er þörf á um 1.000-2.000 innfluttum starfsmönnum á hverju ári næsta áratuginn til að halda uppi 2,5% hagvexti miðað við óbreytta framleiðniaukningu og atvinnuþátttöku.

Töluverð uppsöfnuð þörf er fyrir vinnuafl hérlendis, sérstaklega í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Samkvæmt spá Seðlabankans frá síðasta ári er gert ráð fyrir að störfum muni fjölga um 13.000 á næstu tveimur árum, en það er meira en  núverandi vinnuafl mun ráða við.

Elja segir að starfskraftarnir komi frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Starfsfólkið hefur sömu réttindi og skyldur og íslenskir starfsmenn. Það mun fá greitt samkvæmt íslenskum kjarasamningum, verður í íslenskum stéttarfélögum og greiðir hér skatta eins og lög kveða á um.