Um 9.400 kaupsamningum var þinglýst árið 2014 á landinu öllu og námu heildarviðskipti með fasteignir tæplega 300 milljörðum króna. Meðalupphæð á hvern samning var um 32 milljónir króna. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár Íslands .

Til samanburðar var veltan á árinu 2013 250 milljarðar króna, kaupsamningar voru 8.475 talsins og meðalupphæð hvers samnings 29 milljónir króna. Heildarvelta fasteignaviðskipta jókst því um nær 20% frá árinu 2013 og kaupsamningum fjölgaði um tæplega 11%.

Sé litið til höfuðborgarsvæðisins stefnir heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga í um 240 milljarð króna, kaupsamningar verða um 6300 og meðalupphæð kaupsamings verður um 38 milljónir króna. Heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2013 var 195,6 milljarðar króna og fjöldi kaupsamninga var rúmlega 5.836.

Meðalupphæð samninga árið 2013 var um 33,5 milljón króna. Heildarvelta á höfuðborgarsvæðinu hefur því aukist um tæplega 23% og fjöldi kaupsamninga hefur aukist um rúmlega 7%.