Landsréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem máli Merscus Ventures Limited gegn Tommi‘s Burger Joint Limited (TBJ), auk þriggja nafngreindra einstaklinga, var vísað frá dómi.

Málið varðar innheimtu ríflega 1,7 milljón punda, ríflega 300 milljónir króna á gengi dagsins, sem Merscus lánaði TBJ í tengslum við opnun veitingastaðar kenndum við Tomma í London árið 2016.

Af atvikalýsingu málsins má ráða að lítið hafi verið greitt af láninu síðan þá. Auk TBJ var þeim Ingva Tý Tómassyni, Róberti Aroni Magnússyni og Valgarði Þórarni Sörensen stefnt til varnar í málinu þar sem þeir höfðu gengist í ábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar.

Af opinberum skráningum ytra má ráða að Merscus Ventures Limited tengist Sigþóri Sigmarssyni, fjárfesti og starfsmanni Novator. Málinu var vísað frá dómi í fyrstu atrennu þar sem héraðsdómur taldi almenna tilvísun til meginreglna ensks samninga- og kröfuréttar ekki uppfylla sönnunarkröfur einkamálaréttarfarsins.