Heildarviðskipti með bréf Icelandair Group í Kauphöll Íslands í dag voru um 300 milljónir króna. Heildarvelta í Kauphöll nam um 385 milljónum í alls 30 viðskiptum. Fjöldi viðskipta með bréf Icelandair var sautján. Gengi bréfa félagsins hækkaði um 2,02% og er lokagengi þeirra 4,54 krónur á hlut.

Þá voru um 85 milljóna viðskipti með bréf Marels, sem hækkaði um 0,39% í 12 viðskiptum. Hlutabréf í Icelandair og Marel eru þau einu sem skiptu um hendur í dag, að frátöldum um 380 þúsund króna viðskiptum með bréf Össurar. Gengi í bréfum félagsins breyttist ekki. Úrvalsvísitalan OMXI6 hækkaði um 0,18% í dag og hefur hækkað um 5,6% frá áramótum.

Skuldabréfavísitalan GAMMA: GBI lækkaði um 0,2% í dag í 14,3 milljarða króna viðskiptum. GAMMAi: Verðtryggt lækkaði um 0,3% í 9,8 milljarða viðskiptum og GAMMAxi: Óverðtryggt hækkaði um 0,2% í 4,1 milljarða króna viðskiptum.