Hagnaður Ríkisútvarpsins á tímabilinu 1. september 2014 til 31. ágúst í ár nam 30,5 milljónum króna, samanborið við 271 milljóna króna tapi á sama tímabili í fyrra.

Magnús Geir Þórðarson, sem verið hefur útvarpsstjóri frá vorinu 2014, segir að þessi viðsnúningur sé afrakstur mikillar vinnu. „Við höfum hagrætt eins og við getum miðað við þær kröfur sem gerðar eru til okkar í lögum og þjónustusamningi, en höfum reynt að hagræða frekar í umbúðum en innihaldi.

Þá höfum við leigt út tæplega þrjú þúsund fermetra í húsinu og í vikunni seldum við byggingarrétt á lóðinni. Þetta hjálpar allt til, en félagið er enn mjög skuldsett. Við teljum okkur þó hafa gert það sem við getum gert til að vinna á þeim vanda.“