Evrópusambandið hefur veitt 300 milljóna króna styrk til að stofna nýja Evrópska miðstöð stafrænnar nýsköpunar (European Digital Innovation Hub: EDIH) hér a landi sem hluti af áætlun sambandsins um stafræna Evrópu sem varir frá árinu 2021 til 2027. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Miðstöðin verður sett á laggirnar í haust af Auðnu tæknitorgi í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Rannís, Origo, Syndís ásamt fleiri samstarfsaðilum og fær nafnið „Miðstöð snjallvæðingar“.

Styrkveitingin kemur í kjölfar umsóknar, sem var studd af stjórnvöldum, um þátttöku í verkefninu. Valnefnd ESB staðfesti að Ísland verður í hópi þeirra Evrópulanda sem munu hýsa slíkar miðstöðvar. Miðstöðin hyggst leggja lóð sín á vogarskálarnar við að byggja upp lifandi umhverfi nýsköpunar á sviði snjallvæðingar með tengingum við Evrópu í gegnum systur miðstöðvar um alla Evrópu.

„Með tilkomu Miðstöðvar snjallvæðingar á Íslandi mun skapast tækifæri til samþættingar, samræmingar og þekkingardreifingar á grunnþáttum snjallvæðingarinnar. Miðstöðin mun tengja þarfir við þekkingu, færni og reikniafl innanlands og jafnframt bjóða upp á prófanaumhverfi þar sem opinberir aðilar jafnt sem einkafyrirtæki geta prófað sig áfram í nýjustu tækni án þess að leggja út í miklar fjárfestingar. Áhersla verður lögð á að virkja samlegðaráhrif og öflugt tengslanet. Mikil áhersla verður lögð á að bæta tölvuöryggi á landinu, m.a. með áherslu á framsækin rannsóknarverkefni og auka framboð menntunar á því sviði,“ segir í tilkynningunni.

Miðstöð snjallvæðingar í samstarfi við Rannís mun einnig vekja athygli á tækifærum til sóknar fyrir íslensk fyrirtæki í Digital Europe áætlun Evrópusambandsins, sem mun verja 7,5 milljörðum evra til snjallvæðingarverkefna.