Staða þrotabús Fjárfestingarfélagsins Grettis hefur heldur vænkast upp á síðkastið en nýlega upplýstist að félagið ætti dágóða eign í erlendum skuldabréfasjóði.

Sjóðurinn hefur hækkað verulega að undanförnu og horfur eru á að þrotabúið geti þar endurheimt um 300 milljónir króna vegna kröfu sem talin var óviss um tíma.

Hækkunin ein og sér það sem af er árinu er um 80 milljónir króna sem sýnir vel þann viðsnúning sem er að eiga sér stað á erlendum eignum íslenskra þrotabúa sem getur komið kröfuhöfum vel.

Þetta skiptir verulegu máli en vissulega eru upphæðir háar hjá Gretti; kröfur í þrotabú Fjárfestingarfélagsins Grettis eru 24 milljarðar króna og kröfur í þrotabú Eignarhaldsfélagsins Grettis eru um 30 milljarðar króna.