Empower, nýsköpunarfyrirtæki í jafnréttismálum, tilkynnti í dag 300 milljóna króna fjármögnun frá Frumtaki og Tennin. Empower var stofnað árið 2020 af Þóreyju Vilhjálmsdóttur Proppé og Dögg Thomsen sem hafa reynslu af stefnumótun og breytingastjórnun á sviði jafnréttismála.

Fjármagnið verður nýtt við áframhaldandi þróun og markaðssetningu á hugbúnaðarlausninni Empower Now sem gerir fyrirtækjum og stofnunum kleift að ná yfirsýn yfir stöðu jafnréttismála, setja sér mælanleg markmið og innleiða örfræðslu fyrir starfsfólk í gegnum stafrænar leiðir.

Fyrirtækið stefnir að því að setja Empower Now hugbúnaðinn á alþjóðlegan markað árið 2023. „Fjármögnunin gerir okkur kleift að hraða gerð lausnarinnar og koma henni fyrr á alþjóðamarkað,” segir Dögg. „Í upphafi leggjum við áherslu á Norðurlöndin, Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu.“

Empower hefur veitt leiðandi fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf í jafnrétti og fjölbreytni með áherslu á fyrirtækjamenningu þar sem unnið er út frá heildrænni nálgun. Félagið hefur unnið með Alþingi, Embætti ríkislögreglustjóra, Landsvirkjun, Símanum, TM, Háskólanum á Akureyri og Fjarðaráli.

„Ísland hefur skarað fram úr á sviði jafnréttismála svo tekið hefur verið eftir á heimsvísu. Við höfum til að mynda verið efst í jafnréttismælingum The World Economic Forum 12 ár í röð. Við erum leiðandi í jafnréttisvegferðinni á alþjóðlegum vettvangi en vitum að við eigum enn langt í land til að geta talist jafnréttisparadís,“ segir Þórey.

„Lykilatriði til að ná árangri í þessari vegferð í átt að auknu jafnrétti og fjölbreytni er að horfast í augu við undirliggjandi fordóma og mismunun sem eru til staðar á vinnustöðum og annars staðar í samfélaginu; oftast án þess að við gerum okkur grein fyrir þeim. Við þurfum að kortleggja og skilja stöðuna, setja okkur skýr markmið og hafa viljann til að breyta. Það er mikil eftirspurn frá fyrirtækjum og stofnunum á alþjóðavísu en mjög takmarkað framboð af heildstæðum og sérhæfðum lausnum á þessu sviði.”

Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks:

„Sífellt aukin áhersla á jafnrétti og fjölbreytni á vinnustöðum kallar á sérhæfðar lausnir til að halda utan um þennan málaflokk. Þá hafa ýmis hneykslismál afhjúpað óheilbrigða fyrirtækjamenningu og leitt af sér aukið regluverk á sviði jafnréttis og fjölbreytni. Við sjáum mikil tækifæri hér. Stofnendur Empower hafa djúpa þekkingu á þessu sviði og skilja þarfir markaðarins, bæði fyrirtækjanna og starfsfólksins sem starfar hjá þeim. Lausnir félagsins munu stuðla að auknu jafnrétti og fjölbreytni á heimsvísu. Frumtak og Tennin eru stolt af þátttökunni í þessu mikilvæga verkefni og við hlökkum til vegferðarinnar framundan.”