1. janúar 2015 var hið svokallaða „almenna vörugjald“, sem lagt var m.a. á byggingarvörur, afnumið. Að sögn Árna Stefánssonar, forstjóra Húsasmiðjunnar, hafði það töluverð áhrif á rekstur félagsins.

„Ég sit í stjórn SVÞ og þetta var mikið baráttumál verslunarinnar á sínum tíma og gott að það náðist í gegn,“ segir hann. „Við hjá Húsasmiðjunni lögðum mat á áhrif lækkunarinnar og teljum að það séu tæpar 300 milljónir sem skiluðu sér á síðasta ári til viðskiptavina okkar í formi lægra vöruverðs í okkar verslunum.“

„Nokkuð hefur borið á neikvæðni og tortryggni í garð verslunarinnar í landinu í kringum umræðu varðandi afnám tolla og gjalda en þá gleymist oft og tíðum að taka með í reikninginn að við erum í verðbólguumhverfi. Í þessu tilviki sjáum við þó skýrt að afnám vörugjalda skilaði sér út á markaðinn sem segir að svona breytingar skila sér í verðlaginu og gera íslensk fyrirtæki samkeppnishæfari. Markaðurinn er harður húsbóndi og það er fylgst mjög vel með okkur. Ef þú ert ekki að selja vörurnar á réttu verði þá leita viðskiptavinirnir eitthvað annað.“

Nánar er rætt við Árna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .