Orkuveita Reykjavíkur hefur þegar eytt 300 milljónum króna í viðgerðir á húsnæði Orkuveitunnar við Bæjarháls, vegna raka og myglu í húsnæðinu. Frá þessu er greint í frétt Ríkisútvarpsins , en þar er haft eftir upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar að upphæðin eigi eftir að hækka talsvert.

Hversu miklum kostnaði Orkuveitan þurfi að standa straum af ræðst af niðurstöðu útboðs sem stendur nú yfir. Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, segir aðspurður um hvort Orkuveitan sé að íhuga málaeferli vegna hugsanlegs galla á húsinu, að Orkuveitan sé að meta lagalega stöðu málsins.

Haustið 2015 varð rakaskemmda vart í vesturhúsi höfuðstöðva OR. Síðastliðinn janúar þurfti að rýma hluta af höfuðstöðvum OR við Bæjarháls meðan framkvæmdir standa yfir. Eiríkur segir að talsvert sé enn ógert og að vonir standi til að unnt verði að ljúka viðgerð á næsta ári.