Ráðgjafafyrirtækið Markó Partners hagnaðist um rúmlega 150 milljónir króna á árinu 2012 sem er jafn mikið og árið 2011. Í nýbirtum ársreikningi fyrir 2012 kemur fram að arðgreiðsla nemi 300 milljónum króna, en allt hlutafé er í eigu félagsins Berg fjárfesting ehf. Það félag er aftur í eigu Kjartans Ólafssonar, framkvæmdastjóra Markó Partners, og eiginkonu hans, Halldóru Kristjánsdóttur, fjármálastjóra félagsins.

Markó Partners veitir ráðgjöf á sviði sjávarútvegs við kaup og sölu fyrirtækja og eignarhluta. Það var meðal annars ráðgjafi kanadíska félagsins High Liner Seafood við kaup á bandaríska hluta Icelandic Group árið 2011.