Helsta ástæða mikillar gengisstyrkingar íslensku krónunnar liggur í aukningu í komu ferðamanna. Þar vegur þungt þjónustujöfnuður, sem til einföldunar eru tekjur Íslendinga á erlendum ferðamönnum á móti gjöldum Íslendinga erlendis. Á árunum fyrir 2008 var hvorki halli eða afgangur af þjónustujöfnuði. Vænta má að afgangurinn verði yfir 150 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi að því er kemur fram í greiningu Capacent þar sem er svarað því hvort að við ætlum að veðja með veikingu krónunnar.

Þar er sett fram áhugaverð hugsanatilraun sem tengist hinu margrómuðu Costco fílum, sem hægt er að festa kaup á í heildverslun í Garðabæ á tæplega 500 þúsund krónur:

„Til að átta sig betur á þeim undirliggjandi kröftum sem eru með gengi krónunnar þá þyrftu Íslendingar að stinga 300 þúsund Costco fílum í innkaupakerruna á næstu 3 mánuðum til að jafna út innstreymi gjaldeyris vegna komu erlendra ferðamanna í sumar. Costco þyrfti að selja um 3.400 fíla á hverjum degi í sumar og næstum hvert mannsbarn að eiga einn Costco fíl í lok sumars,“ segir í greiningunni. Ef að allir Íslendingar myndu bæta við einum Costco fíl við matarkörfuna á raðgreiðslum væri hægt að veikja gengi íslensku krónunnar með samstilltu átaki.